MFL. KK

HANDBÓK ÍR

HVÍTBLÁA HJARTAÐ

Kæru ÍR-ingar, núna í sumar fór af stað verkefni leitt af Ísak Mána Wíum yfirþjálfara yngri flokka. Það fól í sér að smíða handbók fyrir körfuknattleiksdeild ÍR. Þessu verkefni er nú lokið og við kynnum með stolti Hvítbláa hjartað.

Hvítbláa hjartað á að vera leiðarvísir fyrir foreldra, iðkendur, þjálfara og aðra sem starfa innan deildarinnar. Hér verða helstu markmið þjálfunar innan deildarinnar kynnt, hvert deildin stefnir og hvernig skal unnið eftir kennsluskrá deildarinnar.

Fjórir kaflar

Hvítbláa hjartað skiptist í fjóra kafla. 

Í fyrsta kafla er fjallað um markmið þjálfunar KKD ÍR en í öðrum kafla er farið yfir hvaða hugmyndafræði deildin nýtir sér til að ná markmiðum sínum og komast á þann stað sem að er stefnt. 

Þriðji kafli snýr að starfs- og verklýsingum barna- og unglingaráðs og þjálfara deildarinnar ásamt hlutverkum foreldra í starfi barna sinna. Að lokum er lögð fram námskrá KKD ÍR þar sem farið er ítarlega yfir hvaða atriði skuli kenna í hverjum flokki fyrir sig.

Okkar stefna

Til að gerlegt sé að lyfta starfi deildarinnar á nýtt stig er annað nauðsynlegt en að allir gangi í takt. Stjórnarmenn, þjálfarar, iðkendur, foreldrar og sjálf – boðaliðar. 

Með tilkomu Hvítbláa hjartans er stefna körfuknattleikdeildar ÍR skýrð og útfærð.

Hugmyndin er sú að endurskoða handbókina á þriggja ára fresti enda breytast tímarnir og mennirnir með. Af þeirri ástæðu er mikilvægt að taka stöðuna reglulega.

Horft til framtíðar

Það er óhætt að fullyrða að samhliða betri árangri meistaraflokkanna hafi komið mikill neisti í starf yngri flokka félagsins. Það endurspeglast einna best í því að á síðastliðnum fimm árum hefur iðkendafjöldi yngri flokka u.þ.b. tvöfaldast.

Handbók körfuknattleiksdeildar ÍR myndar skýra stefnu þar sem horft er til framtíðar með það að leiðarljósi að bjóða upp á eins faglegt starf og mögulegt er.